Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Úrskurður nr. 36/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. febrúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 36/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15070009

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. júlí 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2015, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt hæli sem flóttamaður hér á landi. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 21. mars 2014 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Útlendingastofnun ákvað þann 24. apríl 2014 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 5. desember 2014, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka hælisbeiðni kæranda til efnismeðferðar. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 11. mars 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun dags. 8. júlí 2015, synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 20. júlí 2015. Greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, barst kærunefnd þann 5. ágúst 2015. Þann 4. nóvember 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Talsmaður kæranda og túlkur voru viðstaddir. Þann 5. nóvember sl. bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu. Þá bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í máli kæranda þann 7. desember 2015 í tölvupósti frá talsmanni kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var framburður kæranda metinn stöðugur og að mestu laus við mótsagnir. Þegar litið var heildstætt á frásögn kæranda var hún metin að mestu trúverðug og ekki talin ástæða til annars en að leggja meginatriði frásagnar hans til grundvallar í málinu. Kærandi kvaðst vera stuðningsmaður [...] sem var [...]. Fram kemur að samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hafði aflað séu það einkum meðlimir [...] sem hljóti dauðadóma fyrir margvísleg brot. Þá séu engar heimildir um að fylgismenn [...] hafi verið handteknir fyrir það eitt að styðja hann eða að vera aðilar í stjórnmálaflokknum [...]. Einstaklingar í svipaðri stöðu hafi þó verið handteknir fyrir að brjóta gegn lögum, t.d. með að stunda mótmæli. Útlendingastofnun taldi þessi atriði ekki draga úr trúverðugleika um að hann óttist stjórnvöld í [...].

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi sagst hafa tekið þátt í mótmælum í heimaríki sínu. Hann hafi ekki tekið beinan þátt í mótmælum gegn núverandi forseta enda hafi hann ekki [...]. Kærandi hafi þó skrifað undir undirskriftarlista gegn núverandi forseta auk þess að hafa mótmælt [...]. Þar að auki kveðst hann vera skráður á lista hjá stjórnvöldum vegna þátttöku sinnar í mótmælum og stafi þar af leiðandi hætta af því að snúa aftur til [...].

Í hinni kærðu ákvörðun er farið yfir aðstæður [...] og greint frá breytingum á stjórn ríkisins [...]. Þar kemur meðal annars fram að nokkrar umbætur voru gerðar á [...] stjórnkerfinu [...] og [...] helstu mannréttindi tryggð, svo sem bann við pyndingum. Ástand mannréttinda sé þó enn ábótavant á sumum sviðum, sérstaklega þegar kemur að [...]. Þó hafi núverandi stjórnvöld náð nokkrum árangri á því sviði. Í ákvörðuninni er auk þess fjallað um [...].

Þá greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að aðstæður í [...] hafi verið með þeim hætti að algengt hafi verið að mótmælendur hafi verið handteknir. Þeir hafi jafnvel þurft að sæta fangelsisvist í lengri tíma við slæmar aðstæður auk þess sem margir hafi látist í átökum við lögreglu og hersveitir í mótmælum. Þrátt fyrir að fallist verði á það að [...] stjórnvöld hafi gengið harkalega fram gegn mótmælendum og að aðstæður stjórnarandstæðinga hafi verið slæmar, sé ekki að sjá að aðgerðirnar hafi verið svo alvarlegar að þær feli í sér ofsóknir á hendur almennum mótmælendum. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá stofnuninni að hann hafi verið handtekinn og yfirheyrður á flugvelli. Yfirvöld hafi sleppt honum að lokinni yfirheyrslunni og því verði ekki séð að kærandi hafi á þeim tíma verið í hættu á að vera handtekinn og fluttur í fangelsi, þar sem hann virðist ekki hafa verið undir smásjá yfirvalda á meðan ferðalögum hans til og frá [...] stóð. Þá hafi kærandi sagst hafa verið handtekinn vegna þátttöku í mótmælum gegn fyrri stjórnvöldum. Eftir handtökuna hafi kærandi samt ferðast aftur til heimalands síns til þess að taka þátt í mótmælum.

Þá var sérstaklega skoðað hvort kærandi eigi á hættu að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana sinna [...] af núverandi stjórnvöldum snúi hann aftur þangað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að stjórnvöldum sé kunnugt um afstöðu hans gagnvart þeim. Þó gefi fyrirliggjandi upplýsingar það til kynna að meðlimir andófsflokka verði almennt ekki fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda fyrir það eitt að taka þátt í mótmælum. Kærandi sé ekki forsprakki eða frammámaður stjórnmálaflokksins og ekki verði ráðið af framburði hans að hann hafi skapað sér sérstaka stöðu í stjórnmálum [...]. Þá hafi hann ekki sætt ákæru vegna þátttöku í mótmælum og stjórnmálastarfi. Hann hafi ekki komið til [...] og langur tími sé liðinn frá handtöku hans fyrir mótmæli. Ennfremur séu núverandi stjórnvöld ekki tengd þeim stjórnvöldum sem hann mótmælti á sínum tíma. Ekkert í landaupplýsingum bendi til þess að núverandi stjórnvöld ofsæki andstæðinga stjórnvalda. Því sé talið ólíklegt að þátttaka kæranda í mótmælum geti ein og sér valdið því að hann sæti ofsóknum af hálfu [...] stjórnvalda. Kærandi nefndi að hann væri leikari og væri þar af leiðandi þekktur. Útlendingastofnun taldi að þó hann hafi leikið í einni kvikmynd verði hann ekki talinn svo þekktur að það eitt og sér skapi honum sérstaka stöðu eða hættu. Leiklistarferill kæranda hafi því ekki þýðingu í málinu. Þá var bent á að kærandi ferðaðist til [...] í tíð fyrri stjórnvalda án þess að vera handtekinn, þrátt fyrir að vera yfirheyrður í eitt skipti. Ekki verði séð að aðgerðir fyrri stjórnvalda í garð kæranda hafi falið í sér ofsóknir. Að öllu framangreindu virtu var því ekki talið að kærandi ætti á hættu að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana sinna í heimalandi.

Þá var ekki talin ástæða til að ætla að sjónir stjórnvalda beinist að kæranda og ekkert bendir til þess að hann eigi á hættu að verða fangelsaður eða dæmdur til dauða vegna þeirra atburða sem hann hafi greint frá. Þó dauðarefsing viðgangist í [...] beinast þær helst að meðlimum [...] vegna voðaverka og ofbeldis sem þeir eru taldir hafa framið í kjölfar mótmælanna gegn fyrrverandi forseta ríkisins [...]. Þá var ekki talið að kærandi eigi á hættu að vera ofsóttur af [...]. Þrátt fyrir ólgu í stjórnmálum í [...] sé ekki talið að almennt öryggisástand í [...] sé með þeim hætti að staða kæranda sé sú að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur þangað. Að öllu framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður hans væru ekki með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

Varðandi dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í ákvörðuninni að ekki verði séð að þær aðstæður sem kærandi ber fyrir sig eða almennar aðstæður í [...] geti skapað honum rétt til dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f. Það sé því mat stofnunarinnar, að loknu heildarmati á aðstæðum kæranda og athugun á aðstæðum í [...], að hann geti snúið þangað án teljandi vandkvæða. Ekkert hafi komið fram um að hann hafi sérstök tengsl við Ísland eða hafi sýnt ríka þörf á vernd samkvæmt ákvæðinu. Því var ekki talið að hann ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að rétt þyki að beita frávísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga og að kæra fresti framkvæmd ákvörðunar í málinu, skv. 1. mgr. 32. gr. laganna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda mótmælir hann mati Útlendingastofnunar á aðstæðum hans í [...] og á ástandinu í landinu. Hann telur að lífi sínu og mannréttindum yrði stofnað í hættu verði honum gert að snúa aftur þangað. Hann telur að vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í mótmælum gegn [...] stjórnvöldum sæti hann ofsóknum og að hann sé á skrá yfirvalda vegna þátttöku sinnar í mótmælum.

Í greinargerð er gerð grein fyrir aðstæðum og ástandi í [...] og er þar meðal annars vísað til skýrslu um ástand mannréttindamála í [...] sem útgefin var af bandaríska utanríkisráðuneytinu og skýrslu Human Rights Watch. Kærandi kveðst vera meðlimur í stjórnmálahreyfingu sem styðji [...]. Hann hafi tekið virkan þátt í mótmælum á götum [...] og lent í átökum við lögreglu. Kærandi kveður [...] yfirvöld hafa sett sig á skrá yfir einstaklinga sem hafi tekið þátt í mótmælum. Þá hafi hann skrifað greinar í blöð og á Facebook þar sem hann hafi lýst afstöðu sinni. Hann hafi lýst því að hann hafi verið handtekinn af lögreglu í [...] auk þess sem óeinkennisklæddur lögreglumaður hafi komið heim til hans í þeim tilgangi að spyrja hann út í þátttöku hans í mótmælum. Hann kveðst hafa tekið virkan þátt í mótmælum gegn [...] og hafi þannig komist í óþökk [...] yfirvalda og hersins. Hann hafi lent í átökum við lögreglu, verið beittur ofbeldi og honum hótað lífláti. Þar að auki hafi hann skrifað nafn sitt á lista í þeim tilgangi að krefjast afsagnar [...]. Kærandi kveður herinn og stóran hluta núverandi stjórnvalda þau sömu og hann hafi ítrekað mótmælt og lýst andstöðu við. Eftir að núverandi stjórnvöld tóku við völdum hafi lögreglan komið á heimili foreldra hans í leit að honum. Í kjölfarið hafi hann flúið land og hefur ekki þorað að snúa aftur. Þar að auki hafi hann skrifað nafn sitt á lista þeirra sem krefjast afsagnar núverandi forseta ríkisins [...]. Kærandi kveðst ítrekað hafa fengið fréttir af fólki í sömu stöðu og hann sem hafi verið stungið í fangelsi án skýringa eða þeir drepnir. Þá bíði margir dauðarefsingar.

Kærandi telur að þó að núverandi forseti ríkisins sé ekki tengdur fyrri stjórnvöldum þá breyti það því ekki að honum stafar hætta af yfirvöldum. Stjórnvöld, lögregla og herinn séu að verulegum hluta samsett af sömu einstaklingum og voru í tíð fyrri forseta. Enn fremur beita núverandi stjórnvöld harðræði og ofsóknum gegn mótmælendum. Þá mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að aðgerðir yfirvalda [...] séu ekki svo alvarlegar að þær feli í sér ofsóknir á hendur almennum mótmælendum. Kærandi telur meðferð stjórnvalda á sér og öðrum mótmælendum verði jafnað við ofsóknir og standist ekki mannréttindasáttmála.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að meðlimir stjórnmálaflokks kæranda hafi verið handteknir fyrir ólögleg mótmæli og því verði að telja kæranda enn skotmark stjórnvalda. Þá mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að þar sem flestir sem hafi látist í mótmælum í tíð núverandi stjórnvalda tilheyri [...] og því sé kæranda ekki slík hætta búin vegna ástandsins. Kærandi telur að þessi tilvísun til alvarlegra ofsókna á hendur öðrum hópum sé enn frekar til merkis um hve alvarlegt ástand er í landinu. Þá séu yfirvöld [...] að undirbúa gildistöku laga [...] sem hafa m.a. verið gagnrýnd af hjálparsamtökum.

Í greinargerð kæranda greinir að hann sé leikari og því sé líklegra að borin verði kennsl á hann en annars. Kærandi mótmælir því í hinni kærðu ákvörðun að leiklistarferill hans hafi ekki þýðingu. Hann telur sig berskjaldaðri en hinn almenna borgara fyrir ofsóknum stjórnvalda á grundvelli skoðana sinna.

Með greinargerð kæranda fylgdi afrit af skjali útgefnu af stjórnvöldum [...]. Þar sé listi yfir einstaklinga sem setið höfðu í fangelsi en þar sem kærandi hafði flúið land hafði hann ekki verið í fangelsi ólíkt öðrum á listanum. Nafn hans komi tvisvar fyrir í bréfinu. Vinur hans sé jafnframt nafngreindur í bréfinu en fyrir fimm mánuðum hafi honum verið stungið í fangelsi án þess að hann eða fjölskyldan hans vissu ástæðuna. Gerist þess þörf fer kærandi fram á að viðeigandi kaflar bréfsins verði þýddir af þar til bærum aðila.

Í greinargerð kæranda er vísað til 44. gr., 44. gr. a og 46. gr. laga um útlendinga og A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins.

Í viðtali hjá kærunefnd þann 4. nóvember 2015 greindi kærandi svo frá því að hann væri trúlaus.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Við framlagningu umsóknar kæranda um hæli hér á landi lagði kærandi fram [...] vegabréf. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi er [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[...].

Kærunefndin hefur m.a. yfirfarið eftirfarandi gögn um aðstæður í [...]: [...]

Ofangreindar skýrslur bera það með sér að ástandið í [...] hafi einkennst af pólitískri ólgu undanfarin misseri. Stjórnvöld og almennir borgarar hafa þurft að kljást við spillingu, niðurnítt stjórnkerfi, kúgun, pyndingar og hryðjuverk. [...].

[...] yfirvöld hafa gengið hart fram gegn mótmælendum og fjölmiðlafólki í ríkinu, m.a. handtekið fólk, hneppt í varðhald og pyndað, sem hafi í einhverjum tilvikum leitt til dauða. Helstu vandamál er varða mannréttindi í [...] eru óhófleg valdbeiting öryggissveita ríkisins, þar á meðal ólögmæt manndráp og pyndingar, takmörkun stjórnvalda á tjáningar- og fundafrelsi og takmarkanir á réttlátri málsmeðferð í réttarhöldum [...].

Af ofangreindum gögnum má ráða að aðstæður í [...] og málsmeðferð þarlendra stjórnvalda séu engu að síður almennt til þess fallin að tryggja mannréttindi einstaklinga, að undanskildum tilteknum málum sem snúa að andstæðingum ríkisstjórnarinnar, svo sem mótmælendum og fjölmiðlafólki. Dómstólar [...] eru almennt sjálfstæðir, fyrir utan ákveðin afskipti ríkisstjórnar landsins af málum stjórnarandstæðinga sem hafa verið til meðferðar hjá dómstólum ríkisins. [...] stjórnvöld virða almennt niðurstöður dómstóla í ópólitískum málum. [...] lögreglan er ábyrg fyrir því að lögum sé framfylgt í landinu. Fagmennska er breytileg innan lögreglunnar og vantraust á lögreglunni nokkurt. [...] stjórnvöld viðhaldi almennt góðri stjórn á öryggissveitum landsins en refsileysi viðgangist þó innan [...] lögreglunnar [...].

Stjórnarskrá ríkisins kveður á um trúfrelsi. Hins vegar viðurkenna [...] stjórnvöld ekki [...] trúskipti [...]. Stjórnarskráin tilgreinir [...] sem ríkistrú og [...].

a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kæranda verði veitt hæli sem flóttamaður hér á landi.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu sína á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í mótmælum [...]. Þá kveðst kærandi vera trúlaus.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi ber því fyrir sig að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu [...] stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana hans og þátttöku í mótmælum gegn stjórnvöldum [...]. Hann sé meðlimur í stjórnmálahreyfingu sem styðji [...]. Hann hafi tekið virkan þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í [...] auk þess að hann hafi skrifað undir lista í þeim tilgangi að krefjast afsagnar [...]. Kærandi kveður nafn sitt skráð hjá yfirvöldum og að hann sé í frekari hættu þar sem hann sé leikari. Í viðtali hjá kærunefnd, þann 4. nóvember 2015, kvaðst kærandi þar að auki vera trúlaus.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd skilaði hann inn afriti af dómi [...] dómstóls, [...]. Kærunefnd óskaði eftir þýðingu á dóminum hjá túlki. Þar kom fram að ákært var fyrir ólögleg mótmæli, vopnaburð, árásir á lögreglu og opinbera starfsmenn, eignaspjöll og fleira. Á meðal ákærðu var kærandi. Það var mat nefndarinnar að dómsorðið væri óljóst og var því leitað til tveggja annarra þýðenda. Það er skilningur kærunefndar að kærandi hafi ekki verið dæmdur fyrir þá háttsemi sem ákært var fyrir. Með tölvupósti, dags. 27. nóvember 2015, til lögmanns kæranda var honum gerð grein fyrir þessum skilningi nefndarinnar og kæranda gefið tækifæri til þess að gera athugasemdir. Kærunefnd barst svar frá talsmanni kæranda með tölvupósti, dags. 7. desember 2015, þar sem fram kom að kærandi geri ekki sérstaka athugasemd við þann skilning. Þá sagði að dómurinn sýni að kærandi kunni að búa við hættu á að verða hnepptur í fangelsi án ástæðu, líkt og vinur hans hafi lent í, og að kærandi væri á skrá hjá yfirvöldum.

Líkt og áður hefur komið fram hefur ástandið [...] einkennst af pólitískri ólgu og átökum undanfarin misseri. [...] yfirvöld hafa gengið hart fram gegn mótmælendum og fjölmiðlafólki í landinu. Með vísan til þeirra gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér er þó ekki að sjá að aðgerðir stjórnvalda hafi verið slíkar að þær hafi falið í sér almennar ofsóknir gegn mótmælendum í [...].

Kærandi kveðst vera stuðningsmaður [...]. Í gögnum um [...], sem kærunefnd hefur kynnt sér, er ekki að finna heimildir um að stuðningsmenn [...] hafi verið handteknir fyrir það eitt að styðja hann eða fyrir að vera aðilar að stjórnmálaflokknum [...]. Heimildir séu þó um að stuðningsmenn hans hafi verið handteknir og dæmdir fyrir að brjóta gegn lögum, þar á meðal lögum um mótmæli (e. protest law). Þau kveða meðal annars á um að mótmælendur þurfi að afla leyfis stjórnvalda til að mótmæla [...]. Gögn málsins gefa ekki tilefni til þess að líta svo á að stuðningsmenn [...] hafi almennt sætt ofsóknum af hendi [...] stjórnvalda en kærandi var ekki forystumaður í flokknum.

Kærandi hefur greint frá tveimur atvikum þegar hann var handtekinn af [...] stjórnvöldum. Annars vegar hafi hann verið handtekinn [...] vegna mótmæla og haldið í tvo sólarhringa, en sleppt eftir það. Hins vegar hafi kærandi verið handtekinn á flugvellinum [...] við komuna til [...]. Þar hafi hann verið yfirheyrður í um 12 tíma en sleppt að lokum án vandræða. Samkvæmt frásögn kæranda ferðaðist hann til og frá [...] á árunum [...], en kærandi var búsettur í Grikklandi á þeim tíma. Kærunefnd telur því ljóst að kærandi hafi ferðast til og frá [...] án mikilla vandkvæða eða áreitis [...] yfirvalda. Þá sé ljóst að kærandi ferðaðist til [...] eftir ofangreint atvik þar sem hann var handtekinn og honum haldið í tvo sólarhringa. Það er mat kærunefndar að ekki verði séð að kærandi hafi átt á hættu að vera handtekinn af yfirvöldum í [...] og fluttur í fangelsi, á þessum tíma. Þar að auki, eins og áður greinir, var kærandi ákærður fyrir m.a. ólögleg mótmæli, vopnaburð, eignaspjöll og fleira, en ekki dæmdur fyrir þá háttsemi. Það er mat kærunefndar að ofangreind atvik og áreiti sem kærandi hefur lýst nái ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 44. gr. laga um útlendinga af hálfu [...] stjórnvalda í garð kæranda.

Kærandi kveðst vera á móti núverandi stjórnvöldum, vera skráður á lista [...] stjórnvalda yfir andstæðinga þeirra, og hafi skrifað undir lista í þeim tilgangi að krefjast afsagnar núverandi stjórnar. Ekki er að sjá að kærandi hafi haft skoðanir sínar gagnvart núverandi forseta og stjórnvöldum í frammi opinberlega, fyrir utan að hann kveðst hafa skrifað undir undirskriftarlista gegn þeim. Þá var kærandi síðast [...] árið [...] og hefur því ekki komið þangað í tíð núverandi stjórnvalda. Kærandi hefur þar af leiðandi ekki tekið þátt í mótmælum gegn núverandi stjórnvöldum. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að útiloka að [...] stjórnvöldum sé kunnugt um stjórnmálaskoðanir hans, en eins og áður sagði, þá er ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins sem bendir til þess að núverandi stjórnvöld [...] stundi ofsóknir í garð andstæðinga stjórnvalda almennt.

Af þeim gögnum um [...] sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að þeir andstæðingar stjórnvalda sem helst eru handteknir, ákærðir og í einhverjum tilvikum dæmdir í lífstíðarfangelsi eða til dauða í tíð núverandi stjórnvalda séu stuðningsmenn [...]. Kærandi kveðst vera meðlimur stjórnmálaflokksins [...]. Með vísan til gagna málsins er ekkert sem bendir til þess að meðlimir þess flokks sæti almennt ofsóknum af hendi núverandi stjórnvalda í [...]. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi ekki verið forsvarsmaður eða frammámaður þess flokks sem hann styður og sé af þeim sökum í frekari hættu á að vekja athygli stjórnvalda.

Af gögnum málsins er ekki að sjá að almennir stjórnarandstæðingar eigi á hættu á að vera ofsóttir vegna þátttöku í mótmælum í [...]. Þá er það mat kærunefndar að leiklistarferill kæranda valdi því ekki að hann teljist svo þekktur í heimalandi sínu að það geri hann berskjaldaðri fyrir ofsóknum, en kærandi greindi frá því í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi leikið í einni kvikmynd og tilheyrt sviðsleikhópi. Þá er það mat kærunefndar að sú staðreynd að kærandi hafi verið ákærður m.a. fyrir ólögleg mótmæli gegn fyrri stjórnvöldum, valdi því ekki að kærandi sé í meiri hættu á áreiti eða ofsóknum [...] yfirvalda, m.a. í ljósi þess að hann var ekki dæmdur til refsingar fyrir verknaðinn. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Líkt og áður kom fram greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 4. nóvember sl. að hann væri trúlaus. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu trúmála [...]. Ekki séu til nákvæmar tölur yfir hversu stór hluti þjóðarinnar er trúlaus [...]. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa [...] stjórnvöld ákært einstaklinga fyrir að sverta trúarbrögð. Þá hafi stjórnvöld í sumum tilvikum ekki sýnt viðleitni til þess að koma í veg fyrir, rannsaka og saksækja fyrir glæpi gegn einstaklingum af trúarlegum minnihlutahópum og refsileysi viðgangist. Auk þess hafi komið upp tilvik þar sem lögreglan hafi beitt kristna og trúlausa ofbeldi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má sjá að mismunun gagnvart trúlausum einstaklingum sé til staðar [...] og að einstaklingar sem opinberlega ræddu um trúleysi í sjónvarpi voru fordæmdir og stóðu frammi fyrir félagslegri höfnun, þar á meðal árásum og ákærum. Hafa verður þó í huga að þegar lagt er mat á framangreind gögn að [...] .

Með vísan til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi ástæðuríkur ótti fyrir kæranda að eiga á hættu ofsóknir vegna þess að hann sé trúlaus. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki rætt um trúleysi á opinberum vettvangi eða orðið fyrir ofbeldi eða aðkasti vegna þess í heimalandi sínu. Þrátt fyrir mögulega mismunun og áreiti í garð trúlausra [...] þá er það almennt ekki svo að þeir eigi á hættu ofsóknir í skilningi 44. gr. laga um útlendinga, af þeim ástæðum. Þá er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna og gagna málsins, að sú mismunun og það aðkast sem trúlausir verða fyrir [...] nái ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga. Skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga eru því ekki uppfyllt.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Þrátt fyrir ólgu [...] síðustu ár er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð í bága við 2. mgr. 44. gr. eða 45. gr. laganna. Eins og áður hefur verið tekið fram var kærandi ekki dæmdur fyrir þau ákæruatriði sem honum og fleirum var gefið að sök. Það er því mat kærunefndar að hann eigi ekki á hættu á að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu [...] af þeim sökum. Þá hefur komið fram að dauðarefsingar í tíð núverandi stjórnvalda beinast helst að meðlimum [...] vegna ofbeldis og voðaverka.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

b. Varakrafa kæranda

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða líkt og kveðið er á um í 12. gr. f laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda [...] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælismál sitt. Samkvæmt framansögðu er varakröfu kæranda því hafnað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum